fiðla til fóta....
Jú komið þið nú öll sæl og bless...
Nú er að síga á seinni hluta túrsins en við erum stödd í Montréal. Sólin skín að vanda, við höfum verið frekar heppin með veður enda áttum það skilið eftir rigningartúrinn um Evrópu.
Á morgun eru næstsíðustu tónleikarnir en þeir síðustu verða haldnir í New York borg, Madison Square Garden. Eftir tónleikana hér í bæ fara allir til New York nema Damian nokkur Taylor og ég, því við verðum eftir hér í Montréal í upptökum en komum svo til NY síðar. Ég verð því ekki í símasambandi fyrr en 24.sept.
Ég mun því ekki eiga þess ánægju að vera með í síðustu rútuferð þessa túrs. Við erum með sama rútubílstjóra og í fyrsta túrnum og eru allir hæstánægðir með það. Reyndar var rútan í smærra lagi þannig að fyrst svaf ég með fiðluna til fóta en varð að koma henni fyrir annars staðar þegar ég sá að stóllinn var farinn að halla ískyggilega aftur, enda
viðtækið kanski ekki gert til að hafa með sér bólið.
Það sem dregur annars helst til tíðinda hér er að við höfum fengið nýja búininga sem voru vígðir á síðustu tónleikum, í Atlanta. Ríkir almenn ánægja um klæðin enda voru hinir búiningarnir búnir að syngja sinn svanasöng.
Á leið okkar frá Atlanta til Montréal var komið við einn dag í náttúruparadís í Virginiu-fylki þar sem bílstjórarnir sváfu yfir daginn og við hin flatmöguðum líka. Þetta var alveg mögnuð 12 tíma viðvera þar sem við byrjuðum að gera gengilbeinurnar (á eina veitingastaðnum í marga kílómetra) brjálaðar með því að færa til borð til að búa til langborð en það mátti ekki út af öryggisástæðum. Einmitt. Við gætum öll slasað okkur við langborðið og hina gesti staðarins líka. En í landi öryggis og ákæra er eins gott að hlýða sem við gerðum auðvitað ekki. Eftir að hafa sannfært eina gengilbeinuna um að enginn myndi meiðast, ráðfærði hún sig við eiganda staðarins og lét til leiðast. En þar með var sagan ekki öll sögð. Sumar af okkur gerðust svo djarfar að annaðhvort biðja um ristað brauð með súpu dagsins eða biðja um smávæginlegar breytingar af matseðlinum. Þá var starfsmönnum staðarins öllum lokið þar sem ekki var hægt að breyta matseðlinum eða panta eitthvað sem væri þar ekki. Eftir langa mæðu fengu allir sitt ristaða brauð með smjeri og ruku út í sveitasæluna. Um kvöldið á sama veitingastað, átti sér stað ógleymanleg danssýning nokkurra forkunnarrfagra innansveitarkvenna þar sem allt ætlaði um koll að keyra. Eftir allt stappið og klappið tók við einmannalegur saxófónleikari með play-a-long diskinn sinn og lék tregafullan blús...
Ég bið ykkur vel að lifa...
Sigrún
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home